Já þau nálgast nú óðfluga blessuð jólin, margir tala um jólastress, ég veit það ekki kannski er maður orðinn þetta gamall að maður nennir ekki að stressa sig um of á þessu. Jólin koma samt og alltaf eru þau jafnhátíðleg þó ekki hafi tekist að klára allt sem maður hafði hugsað sér að gera.
Ég hef aldrei skilið þessi allsherjarþrif sem sumir fara útí, skúra loft og veggi, svona í mesta skammdeginu, maður sér ekki einu sinni drulluna í þessari birtu, eða ekki birtu, það birtir nú eiginlega ekki neitt í þessari rigningu sem nú bylur á glugganum. Ég tek bara svona venjuleg helgarþrif, tek gólfin og salernið. Svo baka ég 3 tegundir af smákökum, eina perutertu, eitt svona bóndabrauð og bý til rauðrófusalat og ekki má gleyma ömmuísnum (mér finnst miklu skemmtilegra að elda og baka en þrífa ;-))
Ég á eftir að gera ísinn og þrífa, keypti jólatré í gær, veit ekki alveg hvenær ég á að skreyta það því það hefur verið hefð fyrir því á mínu heimili að það geri það allir saman, en nú verður pabbahelgi þannig að ég verð að gera þetta í kvöld eða á Þorláksmessu seinnipart áður en við förum til mömmu og pabba í hið árlega Þorláksmessuboð.
Aðfangadagskvöld er komið á hreint verðum ég og bróðir minn og hans kona og barn hjá mömmu og pabba. Soldið erfið jól hjá henni mágkonu minni hún missti mömmu sína í sumar bráðunga úr krabbameini, þannig að það eru fyrstu mömmulausu jólin hjá henni. Ég verð barnlaus og örugglega soldið meir þess vegna, við vonum að þetta verði nú ekki einhver grátkór þarna á Aðfangadag.... ÚBS... Nei, nei, við látum það nú ekki gerast.
Jæja jólin koma, jólin koma.......
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli