sunnudagur, mars 30, 2008

Miðborgin á sunnudegi!

Ég átti leið niður í Ráðhús í dag, þar er bæði mjög skemmtileg ljósmyndasýning á vegum Fókus og mjög falleg málverkasýning með málverkum eftir Ólöfu Pétursdóttir.

Ég hringsólaði í a.m.k. 20 mínútur um miðbæinn að leita að bílastæði! Þarna keyrði ég fram hjá nokkrum svæðum með tómum stæðum sem eru greinilega í einkaeigu því þau voru lokuð með stórum slám. Bílastæðahúsið í Ráðhúsinu var lokað og bílastæðahúsið við Vesturgötu var eitthvað bilað og opnaðist ekki. Loksins fékk ég stæði á bílastæðinu við Bæjarins bestu pylsur. Þarna voru tugir ef ekki hundruðir bíla að leita að stæði á sama rólinu og ég og annað eins lagt ólöglega upp á gangstéttum.

Svo eru menn hissa á því að "buisness" í miðbænum gangi illa, það er bara ekkert skrítið að eini reksturinn í miðbænum sem gengur vel séu öldurhús bæjarins þar sem allir sem koma þangað koma og fara í leigubíl og þurfa ekki að hafa áhyggjur af bílastæðum.

Svo kemur þetta hefðbundna, afhverju tekur fólk ekki bara strætó. Strætó?? Hann gengur aðeins einu sinni á klukkutíma allavega í mínu hverfi á sunnudögum og það þýðir að ferðin í bæinn eða heim getur tekið óratíma ef maður þarf að skipta um strætó á leiðinni og allir vagnarnir ganga á klukkustunda fresti, come on.

Ég átti nú líka erindi í miðbæinn um miðjan virkan dag um daginn og það var alveg sama sagan, engin stæði. Það þýðir nú bara að einu viðskiptavinirnir sem nýta sér þjónustu í miðbænum séu þeir sem búa eða vinna í mibænum!

Bjargið miðbænum áður en það er of seint!

Engin ummæli: