fimmtudagur, apríl 17, 2008

Börn og skyldur!

Það gerist nokkuð oft núna að Skottið er að leika sér í skotinu sínu með dúkkur, þær eru háttaðar á hverju kvöldi ofan í rúm með snuddur. Hún situr með þær í fanginu og talar við þær ósköp ljúfmælt. Segist ekki nenna að gefa þeim brjóst svo þær verði bara að fá pela osfrv. Við hin eldri sem heyrum þessar samræður eigum oft soldið bágt með okkur og um daginn var hún hjá afa sínum og leit hún á hann þegar hann gat ekki haldið niður í sér hlátrinum lengur og spurði sposk af hverju hann væri að hlæja, hann var nú fljótur til og sagði að það hefði verið eitthvað svo fyndið í sjónvarpinu, hún keypti það og hann slapp í það skiptið. Það sem nefnilega gerist ef hún uppgötvar það að það er einhver að hlusta á hana er að hún fer öll í kerfi og hættir leiknum.

Fyrir mig, mömmuna, getur þetta stundum verið soldið óþægilegt, sérstaklega þegar hún er að siða dúkkurnar eða skamma þær þá eru sko notaðar nákvæmlega orðrétt sömu skammarræðurnar og hún fær eða systkini hennar þegar þau haga sér ekki nákvæmlega eins og mamma vill.

Gærdagurinn var soldið svoleiðis, ég er hálftuskulega þessa dagana, með hálsbólgu og höfuðverk og pottþétt með einhverjar kommur í hita en hef ekki gefið mér tíma til að mæla mig og er alls ekki nógu veik til að liggja bara heima undir sæng. En það sem gerist er að þráðurinn verður afskaplega stuttur og maður getur æst sig yfir hlutum sem maður annars tæki nokkuð létt. Skottið fékk að fara með vinkonu sinni heim úr leikskólanum og svo kom ég að sækja hana um hálfsjöleytið, búin að útbúa matinn og hann beið bara eftir okkur, kartöflurnar og grænmetið soðið og fiskibollurnar tilbúnar í ofninum. En þá gerðist það að þær vinkonurnar stungu af á meðan ég spjallaði við foreldrana og fóru á róluvöllinn og það kostaði alveg hálftíma að koma Skottinu heim þaðan.

Unglingurinn hringdi í mig rúmlega hádegi og sagðist vera kominn heim og spurði hvenær ég kæmi heim, ég sagðist ekkert koma fyrr en rúmlega 5 og þá dæsti hann. Hann nennti nefnilega ekki að taka strætó á æfingu svo hann bara sleppti henni. Ég sagði honum nú að fara og viðra hundinn í góða veðrinu en minn maður var steinsofandi þegar ég kom heim og var ekki búinn að fara með hundinn og ekki búinn að taka úr uppþvottavélinni sem þó er eina skylduverk þeirra systkinana.

Auðvitað röflar maður í svona tilfellum, hann fór ekki með hundinn fyrr en að ganga tíu. Gelgjan var að vinna eitthvað verkefni fyrir skólann og byrjaði auðvitað ekki á því fyrr en um tíuleytið í gærkveldi, á sama tíma og ég var að reyna að sannfæra Skottið um að nú væri sko löngu komin nótt og hún þyrfti að fara að sofa til að vakna í leikskólann. En á meðan ég var að þessu var Gelgjan sífellt að spyrja mig hvað hitt og þetta þýddi á ensku en hún var að nota einhverja enska vefsíðu sem heimild. Ég bara fékk nóg, ég á alltaf að vera tilbúin að aðstoða, fæ skammir ef ekki er búið að þvo þær buxur eða bol sem á að nota á þeirri stundu og ef ég hef ekki keypt "rétt" inn þ.e. vantar eitthvað sem þeim þykir gott, ég fékk líka að heyra það að ég gleymdi tónleikum sem Gelgjan var að spila á, ég held að það séu fyrstu tónleikarnir sem hún spilar á sem ég mæti ekki á síðan hún hóf tónlistarnám sitt níu ára gömul! En þær litlu skyldur sem lagðar eru á þeirra herðar eru vanræktar út í eitt og svo er bara rifið kjaft. Ég á stundum ekki til orð og hugleiði það mjög þessa dagana að segja upp starfinu sem mamma!!

Engin ummæli: