laugardagur, mars 07, 2009

Milljarða.....


Já talandi um milljarða, þá fór ég tvisvar í vikunni á sýningu sem tengdist einhverju svona milljarðadæmi. Hvað er milljarður? jú þúsund milljónir, en hvað eru þúsund milljónir? Ég persónulega skil svona aðeins færri milljónir eins og 30 milljónir sem er svona verð á góðri íbúð, tvær milljónir sem eru svona verð á sæmilegum bíl, 5 milljónir sem eru svona meðalárslaun fyrir skatta osfrv. Ég get svona séð fyrir mér allt að kannski 100 milljónum, það eru stærðir sem ég skil.. eftir það verður þetta bara heill haugur af peningum....hmmm...

Á fimmtudagskvöldinu fór ég og sá sýninguna "Milljarðamærin snýr aftur" í Borgarleikhúsinu og var það einstök sýning. Bæði voru leikararnir frábærir og svo er ádeila leikritsins líka mjög tímabær. Getur maður fengið allt ef maður á nógu mikinn pening, er fólk tilbúið að gera hvað sem er fyrir peninga? Hvenær er örvæntingin orðin nógu mikil til að fólk sé tilbúið að leggja öllum sínum siðferðislegum gildum? En allavega mjög gott leikrit og ég get mælt með því við hvern sem er.

Í dag sá ég svo kvikmyndina "Viltu vinna milljarð?". Hún er einnig mjög góð og sýnir okkur inn í heim, munaðarlausra barna á Indlandi, maður fær nú bara hroll þegar maður hugsar til þess að það eru mörg börn enn í dag á Indlandi sem búa við þessi kjör. Boðskapur myndarinnar er kannski ekki svo mikill, en samt að ekkert er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott hmmm... eða enginn þannig séð, en meira svona að sýna eymd og fátækt.

Allavega er ég svo sem engu nær hvað milljarður er stór og mikil upphæð eða stór stafli af peningum, en get innilega mælt með báðum þessum sýningum.

Engin ummæli: