þriðjudagur, apríl 21, 2009

Draumalandið

Fór í bíó í síðustu viku og sá Draumalandið.

Æji ég veit það ekki, mér leið ekkert vel á þessari mynd, leið pínulítið eins og glæpamanni. Jú, jú ég hef unnið við að skoða stóriðju og ýmsar framkvæmdir tengdar henni síðasta áratuginn eða svo, en í myndinni er mjög svo drungalegur boðskapur. Ég er reyndar ekki búin að lesa bókina, hún er á náttborðinu mínu, en hef einhvern vegin ekkert komist áfram með hana, sé til hvernig það þróast.

Mér finnst vera gert lítið úr landsbyggðafólki í þessari mynd og gerir grín að því þegar Húsvíkingar og Reyðfirðingar fagna samningum um komu álvers, eitthvað svona æji greyin þau vita bara ekki betur....

En boðskapur myndarinnar er sá að erlend stórfyrirtæki séu með áætlanir um yfirtöku auðlinda þeirra vesalings þjóða sem þeir setja verksmiðjur sínar í. Já, einn punktur var soldið fyndinn en það var þegar fyrrverandi bæjarstjóri þeirra Reyðfirðinga var tekinn tali og hann sagðist vinna nú sem verkefnastjóri hjá ALCOA. En stuttu áður var búið að ræða þá samsæriskenningu að þessi fyrirtæki borguðu stjórnmalamönnum og þeim sem einhverju réðu undir borðið og jafnvel setti þá á launaskrá. Fyrrverandi bæjarstjórinn átti semsagt að sanna þessa kenningu hehehe...

Þeirri skoðun öfgafullra náttúrverndarsinna hefur verið haldið mjög á lofti, að ekki megi reisa verksmiðjur heldur eigum við að gera "eitthvað annað". Jú en hvað? Þá er fátt um svör... jú ferðamennska... en hún mengar líka, þessir ferðamenn þurfa að komast á milli staða og nota til þess koltvísýringspúandi farartæki sem fara illa með andrúmsloftið.

Margt landsbyggðafólkið vill hafa meiri fjölbreytileika í sínum atvinnumöguleikum og vill eitthvað annað en sjávarútveg og búskap. Fólkið t.d. á Reyðarfirði gat ekki ákveðið að vinna bara við eitthvað annað, það verður einhver að vilja borga brúsann, auðvitað leysir álver ekki allt en störf og atvinnustarfsemi sprettur ekki bara af sjálfu sér, óháð markaðslögmálum.

Jæja, en ég allavega sá þessa mynd og jú hún vekur mann soldið til umhugsunar en er kannski einum of öfgafull og fullyrðingar í henni, margar hverjar, standast engan veginn.

Engin ummæli: