mánudagur, febrúar 18, 2008

Náttúruval.

Heyrði einhvern tíman um daginn að karlmenn með mikla karlhormóna eignuðust frekar stelpur, ef þetta væri ekki svona þá myndum við sennilega enda sem einhvers konar villimenn. Ég er nú ekki há í loftinu en það er svo skrýtið að ég sé bara hávaxna karlmenn, "allir" þeir sem ég hef verið með hafa verið frekar hávaxnir, fyrrverandi er 188cm. Ég geng inn á skemmtistaðina og ég sé bara hausana sem standa uppúr hópnum, ótrúlega skrítið. Mamma hefur sagt að þegar ég var lítil í dansskóla og það var dömufrí þá var ég sko langfyrst að hlaupa til og bjóða hæsta og myndarlegasta stráknum upp.

En auðvitað er skýring á þessu eins og öllu öðru, þetta er bara náttúruval, ómeðvitað, maður er alltaf að leita að einhverjum til undaneldis þó að maður sé hættur að eiga börn og þar sem ég er lágvaxin, leita ég hávaxinna karlmanna til að ungarnir mínir verði hávaxnari. Enda sýnir það sig, Unglingurinn er orðinn 186cm er að ná pabba sínum og Gelgjan er 172cm tæpir. Þannig að ef ég hefði ekki Skottið væri ég sú lægsta í fjölskyldunni.

Svona er náttúran skrítin.

Engin ummæli: