laugardagur, janúar 12, 2008

Minning

Elskulegur afi minn kvaddi okkur í hádeginu í dag.

Fyrir viku síðan var hann lagður inn á sjúkrahús og þá kom í ljós í hvað stefndi, þannig að ég er eiginlega bara fegin að þetta tók fljótt af. Afi minn vildi nú ekki vera neinum byrði þannig að hann hefur örugglega bara viljað hafa þetta svona.

Ég og krakkarnir heimsóttum hann á þriðjudaginn og var það mjög góð stund sem við áttum með honum þá.

Afi og amma eignuðust 6 börn og eru þau 5 sem lifa nú föður sinn. Afkomendurnir eru tæplega 40 auk fjölda stjúpbarnabarna og stjúpbarnabarnabarna.

Afi minn var merkilegur kall, hann var kennari og starfaði lengst af sem íþróttakennari, mikill íþróttamaður, æfði fimleika með KR á sínum yngri árum og fór m.a. til útlanda að sýna fimleika. Hann var kominn vel yfir fimmtugt þegar hann stóð á höndum og fór niður tröppurnar á Melhaganum á höndum og við krakkarnir horfðum á hann með aðdáun. Ein jólin man ég að hann fékk rafmagnsrakvél í jólagjöf og svo rakaði hann sig og við barnabörnin skyldum svo fara í röð að kyssa hann á kinnina til að finna hvað hann væri mjúkur.

Hann starfaði í fjölda ára sem skógarvörður í Þrastarskógi og hefur plantað mörgum grenitrjánum þar. Þau voru mörg sumrin sem hann og amma og þá kannski sérstaklega amma eyddu í skóginum með krökkunum. Þar áttu þau yndislegt sumarhús rautt og hvítt í fallegu skógarrjóðri og lengi vel fannst mér eins og þetta væri bara sumarhúsið, nákvæmlega eins og sumarhús eiga að vera. Áður en 6 ára bekkur varð skylda í skólum, og í mörgum skólum var nú ekki einu sinni boðið uppá 6 ára bekk, voru amma og afi með smábarnaskóla í risinu á Melhaganum. Þar lærði ég að lesa, skrifa og reikna aðeins 4ra ára gömul.

Alltaf var spennandi að kíkja á jólatréð á Melhaganum hjá ömmu og afa því þetta var það stærsta jólatré sem sást í bænum og alltaf var það úr skóginum. Á Gamlárskvöld hittumst við svo öll hjá afa og ömmu og þar var borðað á langborði lax úr Soginu. Afi elskaði að veiða eins og svo mörgum úr fjölskyldunni.

Krakkarnir hans afa voru og eru mjög vinnusöm og dugleg og hann veitti þeim enga miskunn, sjálfur var hann alltaf í einhverri vinnu á sumrin í skólafríinu, auk þess sem hann sinnti skóginum. Ég var ekki nema 8 ára gömul þegar við vorum í sumarbústað við Álftavatn þar voru bátar og afi plataði mig og frænku mína um borð í einn bátinn. Hann réri honum alveg að Soginu og fór svo úr bátnum og við frænkurnar máttum koma okkur sjálfar heim. Þarna rérum við og rérum en straumurinn í Soginu var mikill og okkur fannst við ekkert komast áfram, en við héldum áfram á sitt hvorri árinni og loksins komumst við af stað og náðum að róa í land við bústaðina en blöðrurnar á höndunum á okkur voru lengi að hjaðna. En þetta þótti afa bara sjálfsagt, stelpurnar skyldu bara spjara sig.

Svona var afi, blessuð sé minning hans.

Engin ummæli: