miðvikudagur, janúar 30, 2008

Vinurinn

Á efri hæðinni hérna í húsinu býr maður á svipuðum aldri og ég nema hann er þroskaheftur og vinnur í Krónunni við það að sækja kerrur. Hann er vinur minn. Hann fylgist með öllu sem gerist í húsinu, maður kemur varla heim nema hann sé í glugganum að fylgjast með hver sé að koma og fara.

Þegar ég flutti inn fyrir einu og hálfu ári síðan elti hann mig einhvern tímann inn í geymsluna mína sem er uþb. 5 fermetra stór og fyllti upp í dyrnar og spurði hvort ég byggi ein. Mér stóð nú ekki alveg á sama og svaraði því til að ég byggi ekki ein ég byggi með börnunum mínum um leið og ég reyndi að smeygja mér fram hjá honum. Hvar er kallinn? spurði hann þá, ég svaraði því til að hann væri farinn. Nokkrum mánuðum seinna var hann aftur búinn að elta mig í geymsluna og spurði hvort ég væri kominn með nýjann kall, ég sagði svo ekki vera og þá spurði hann hvort ég ætlaði að fá mér nýjann kall eins og hann orðaði það greinilega alveg tilbúinn í jobbið ef á þyrfti að halda. Jæja síðustu vikur hefur hann verið að færa sig uppá skaptið, maður reynir auðvitað að vera kurteis enda er þetta allt vel meint. Hann bauðst til að skipta um slöngu í hjólinu mínu, vildi endilega hjálpa mér að bera inn jólakassana, ég fæ inn um lúguna Krónupenna og uppskriftir úr Rice Crispies pökkum, hann bankaði um daginn og fékk hjá mér Moggann og í síðustu viku kom hann færandi hendi með kremkex sem var útrunnið sem hann hafði fengið í Krónunni.

Hann toppaði þetta eiginlega áðan þegar ég var í Krónunni og spurði hvort ég gæti ekki sótt hann í vinnunna klukkan 19:00?! Ég sagðist vera upptekin!!

Verð að fara að setja honum skýr mörk.

Engin ummæli: