föstudagur, janúar 18, 2008

Tónlist og handbolti.

Ég og dóttirin fórum í gær á "Jesus Crist Superstar", alveg mögnuð sýning. Þetta er reyndar alvöru þungarokk uppsetning og kannski ekki fyrir viðkvæma, en góð er hún. Þegar ég sat þarna fór ég að hugsa hvað maður hlustar mikið á hina eilífu síbylju sem glymur á manni á útvarpsstöðvum landans og ég fór að hugsa um tónlistina sem dóttir mín hlustar á og þá tónlist sem ég hlustaði á á hennar aldri.

Ég var algjört Led Zeppelin fan á mínum gagnfræða- og menntaskólaaldri, einnig var Pink Floyd í mjög svo miklu uppáhaldi og man ég vel veturinn 1979-1980, þegar ég er á nákvæmlega sama aldri og dóttirin, kom út "The Wall" með Pink Floyd við hlustuðum á hana á hverju einasta kvöldi í marga mánuði, ég kann ennþá flesta textana. Myndin kom út skömmu síðar, ja allavega nokkrum árum, og þá var farið á hana líka nokkrum sinnum. Auk þessa hlustuðum við á Utangarðsmenn, The Doors, Jethro Tull, U2 ofl. ofl. Ég veit eiginlega ekki hvort þetta flokkast undir rokk eða bara klassík?!

En allavega þegar ég skildi og við tókum til í bílskúrnum fórum við með allar gömlu vinyl plöturnar mínar í Sorpu enda hafði plötuspilarinn ekki verið í lagi í mörg ár. Ég fékk bara safndiska í staðin með uppáhalds hljómsveitunum mínum enda er fyrrverandi svona "poppdrengur" ég gat aldrei kennt honum að meta þessa tónlist. Það harðasta sem hann hlustaði á var U2 og Bubbi annars er það bara Sálin. Þið megið ekki misskilja mig, ég fíla Bubba, U2 og Sálina mjög vel enda er ég kannski soldil alæta á tónlist.

Ég er allavega með Pink Floyd safndiskinn í bílnum og hlusta iðulega á hann, um daginn sótti ég dótturina á skátafund og einn af skátunum fékk að fljóta með, ég með diskinn í og auðvitað þarf maður að spila þetta soldið hátt svona til að fíla bassann. Dóttirin, sagði strax við vinkonuna, "þú verður að afsaka hana mömmu og hennar tónlistarsmekk", eftir smástund kom lagið "Money" og þá segir hún allt í einu er þetta Pink Floyd? og það er nefnilega það sem ég segi þeir eru klassískir, í ljós kom að hún þekkti fullt af lögunum en vissi ekki hver spilaði tónlistina.

Af því að við fórum á sýninguna í gærkveldi missti ég auðvitað af handboltaleiknum, ég stillti því videoið á upptöku og ákvað að hlusta ekki á útvarp á leiðinni heim til að heyra ekki úrslitin. Þegar heim var komið var upptakan sett af stað, þarna sat ég í stólnum og fór svo að hrópa á sjónvarpið eins og venjulega þegar ég horfi á handbolta "svona koma nú", "ekki gefast upp", "brjóta á honum", "upp með hendurnar", "æji strákar" osfrv. osfrv. Allt í einu heyrist í dótturinni, "mamma þetta er upptaka þeir heyra ekkert í þér!!"

Engin ummæli: