mánudagur, janúar 28, 2008

Mjög svo þjóðleg helgi!

Fór á þorrablót Stjörnunnar á föstudagskvöldinu. Saumaklúbburinn ákvað að skella sér enda gamlar Garðabæjargellur. Þekkti þó nokkra en það er greinilegt að það er soldið langt síðan ég bjó í Garðabænum enda komin 18 ár síðan ég flutti þaðan. Þetta var ágætis skemmtun og rann niður nokkuð af rauðvíni og "breezer" og fór laugardagurinn í það að jafna sig og fara yfir atburðarás kvöldsins til að rifja upp hvort maður hafi nú sagt eða gert eitthvað vitlaust! En nei, engar stórar gloríur í þetta sinn. Ég er svo sem ekki vön að gera þær, það eina sem háir mér þegar ég fæ mér í glas er að ég fer iðulega á "trúnó" og tala um líf mitt og tilfinningar sem ég myndi annars ekkert vera að ræða nema við útvalda, ég er ekki þessi týpa sem er að "blammera" fólk, eða tala illa um aðra, það er bara ekki ég. Lenti ekkert á trúnó föstudag!

Það hefur skapast hefð fyrir því hin síðari ár að móðurbróðir minn skipuleggur svona stórfjölskyldu "sammenkomst" nokkrum sinnum á ári og eru það yfirleitt gönguferðir stuttar í mesta skammdeginu en góðar dagleiðir í maí og september og ein útilega á sumrin. Dagskráin er send út með jólakortunum! Þannig var að í gær var skipulögð gönguferð umhverfis Tjörnina í Reykjavík og ferð á Þjóðminjasafnið á eftir. Við söfnuðumst saman þarna á annan tug fólks og barns (þ.e. Skottið mitt var eina barnið í þetta sinn) allir í regngöllum og nú skyldi barist um í rokinu og rigningunni. Þetta gekk ágætlega, hélt reyndar mjög fast í Skottið á brúnni yfir Tjörninni það var svakalegur vindur og hún hefði nú bara getað fokið út á miðja Tjörn. En síðan var Þjóðminjasafnið skoðað með leiðsögn og að lokum fenginn sér kaffi/kakóbolli í kaffiteríunni. Hef ekki komið í Þjóðminjasafnið síðan því var breytt en þetta er mjög svo góð fjölskylduskemmtun, mæli með því við alla.

Engin ummæli: